Árgangafulltrúar

Skilgreining á starfi og verksviði árgangafulltrúa

Árgangafulltrúar gegna einu mikilvægasta hlutverki í foreldrastarfi skólans. Foreldrafélagið leggur því mikla áherslu á að styðja það starf með aukinni fræðslu og ráðgjöf. 

Fráfarandi árgangafulltrúar skulu stefna að því að finna nýja fulltrúa fyrir lok starfsársins. Með þessum hætti er auðveldara að hefja bekkjastarfið af fullum krafti í upphafi næsta skólaárs. Ef ekki hefur tekist að skipa árgangafulltrúa í lok skólaársins er æskilegt að árgangafulltrúar séu kjörnir í upphafi hvers starfsárs. Sá vettvangur getur t.d. verið á skólasetningu eða sambærilegum vettvangi.

Hlutverk árgangafulltrúa er m.a. að:

Stuðla að auknu samstarfi foreldra, kennara og nemenda innan hvers bekkjar. Árgangafulltrúar eru kosnir af foreldrum eða tilnefndir í samráði við fyrri árgangafulltrúa. Í 4. gr. laga félagsins er gert ráð fyrir að árgangafulltrúar séu 3 úr hverri bekkjadeild og ekki sé skipt um alla í einu.

Árgangafulltrúar kalla saman foreldra barnanna í bekknum eigi sjaldnar en tvisvar á ári, í fyrra skiptið fljótlega eftir að þeir hafa verið kosnir og helst fyrir aðalfund félagsins. Þá ræða þeir við aðra foreldra barnanna í bekknum um markmið og framkvæmd bekkjastarfs á komandi vetri.

Árgangafulltrúar eru tengiliðir umsjónarkennara við foreldra og er ætlað að tryggja gott samstarf þar á milli. Þeir skipuleggja almenna foreldrafundi í samvinnu við umsjónarkennara í upphafi skólaárs. Á þeim fundi eru lagðar línur fyrir bekkjastarfið.

Árgangafulltrúar eru einnig reiðubúnir að aðstoða kennarann við að skipuleggja þátttöku foreldra í skólastarfinu t.d. í tengslum við vettvangsferðir, starfskynningu og heimsóknir foreldra í bekkinn.

Árgangafulltrúar eru tengiliðir foreldra við kennarann og kemur sjónarmiðum þeirra á framfæri þegar þess gerist þörf.

Árgangafulltrúar eru tengiliðir foreldra innbyrðis og senda út bekkjalista með símanúmerum og nöfnum barnanna. Sé þess óskað skal einnig senda út nafnalista fyrir foreldra/forráðamenn.

Árgangafulltrúar hafa frumkvæði að því að sem flestir foreldrar séu virkir í bekkjastarfinu. Best er að skipta verkefnum með foreldrum í upphafi skólaárs. Gott er að mynda hópa nokkurra foreldra til að vinna verkefnin.

Árgangafulltrúar sjá um að safnað sé í bekkjamöppu gögnum um foreldrastarf hvers vetrar svo sem fundargerðum, myndum og öðru sem gaman er að eiga til seinni tíma og fyrir nýja árgangafulltrúa til glöggvunar á starfi bekkjarins og skemmtunum.

Árgangafulltrúar eru tengiliðir foreldra við stjórn foreldrafélagsins og foreldraráðs. Þeir taka þátt í fundum þess ef þess er óskað og miðla upplýsingum í báðar áttir.

Árgangafulltrúar hlusta eftir sjónarmiðum nemenda varðandi bekkjastarf og bekkjaranda. Gott er t.d. að nemendur taki þátt í einum foreldrafundi á hverju ári þar sem málin eru rædd.

Árgangafulltrúar allra bekkjadeilda í skólanum funda með stjórn foreldrafélagsins tvisvar sinnum á skólaárinu og oftar ef þurfa þykir.

Við megum nota sal skólans eða stofur.

Ef við þurfum að nota aðstöðu skólans þarf að bóka tíma fyrir sal eða stofur hjá húsverði.
Við megum ljósrita ef á þarf að halda í samráði við skólastjórnendur.
Ef nýting er fyrir utan starfstíma húsvarðar þarf að nálgast lykil hjá formanni eða varaformanni Foreldrafélagsins.