Eineltisteymi

Einelti

Leiðarljós Holtaskóla er:

Holtaskóli er samfélag sem einkennist af virðingu, ábyrgð, virkni og ánægju. Í því felst að einelti er ekki liðið í Holtaskóla því það er á allan hátt í andstöðu við leiðarljós skólans. Í einelti felst virðingarleysi, óábyrgð, það dregur úr virkni þess sem fyrir því verður og ánægju þátttakenda og þeirra sem í skólanum eru. Í skólanum starfar eineltisteymi sem vinnur að forvörnum gegn einelti samkvæmt PBS- kerfinu, Stöndum saman - Forvarnir gegn einelti í heildstæðum stuðningi við jákvæða hegðun auk þess sem teymið er kallað til komi upp eineltismál.

Hafi foreldrar eða einhver annar grun um einelti er mikilvægt að þeir tilkynni grun sinn á þar til gert eyðublað til umsjónarkennara eða einhvers í eineltisteyminu: Tilkynning um einelti.

Skilgreining á einelti

Einelti er endurtekið líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi, þegar einn eða fleiri níðast á eða ráðast aftur og aftur á sama einstakling. Gerandinn eða gerendur sameinast um að gera fórnarlambi sínu, þolandanum, lífið nánast óbærilegt. Fólk hefur misjafnt sársaukaþol, misjafnt skopskyn og tilfinningar. Ef einelti varir og enginn styður þá sem verða fyrir því, er hætta á að viðkomandi beri þess merki ævilangt. Einnig eru mörg dæmi þess að gerendur eigi um langt skeið í vanda vegna gerða sinna, þeir þurfa því ekki síður á hjálp að halda. 

Grunur um einelti. – Hvað þá? Vinnuferli 1

1. Skriflegri tilkynningu um einelti er skilað til umsjónarkennara eða fulltrúa eineltis-teymis. Hægt er að nálgast eyðublað á heimasíðu skólans og á skrifstofu.

2. Málinu vísað til eineltisteymis.

3. Allir sem koma að þolanda (gangaverðir, kennarar, starfsfólk skólans, starfsfólk íþróttahúss) fylgjast sérstaklega með honum. Öll áreiti kringum hann eru skráð. Umsjónarkennari og foreldrar/forráðamenn miðla daglega milli sín hvernig dagurinn gekk í skólanum og afrit sent til fulltrúa eineltisteymis.

4. Fulltrúar eineltisteymis tilkynna foreldrum/forráðamönnum meints geranda að til standi að ræða við meintan geranda og þeim boðið að sitja þann fund. Meintum geranda er gert ljóst að hann sé grunaður um að vera gerandi í eineltismáli. Staðlaðar spurningar eru lagðar fyrir meintan geranda.

5. Fulltrúar eineltisteymis ræða við þolandann og finna fyrir hann tengilið sem hann treystir. Það getur verið umsjónarkennari, námsráðgjafi, deildastjóri eða aðrir í starfsliði skólans. Tengiliður fylgist vel og reglulega með líðan nemandans. Haft verður samband við foreldra/ forráðamenn þolandans.

6. Könnun um líðan skoðuð og tengslakönnun lögð fyrir bekkinn.

7. Farið yfir eineltishring og skilgreiningu á einelti á bekkjarfundi.

8. Eineltisteymið kannar málið og skráning á hegðun fer fram í tvær vikur.

9. Eftir skráningartímabilið kemur eineltisteymið saman og fer yfir málið.

10. Foreldrar/forráðamenn þolanda eru boðaðir til fundar með fulltrúum eineltisteymis til að fara yfir niðurstöður málsins.

11. Ef niðurstöður benda til þess að ekki sé um einelti að ræða er málið sett í bið og foreldrar/forráðamenn samþykkja það með undirskrift.

12. Ef niðurstöður athugunar hafa leitt í ljós að um einelti sé að ræða, sem ekki hafi tekist að stöðva, er aðgerðaáætlun skólans sett í gang þar sem öllum tiltækum ráðum er beitt til að stöðva eineltið. Málið er þá komið í vinnuferli 2.

 

Einelti staðfest. – Hvað þá? Vinnuferli 2

1. Allir sem koma að þolanda og geranda (gangaverðir, kennarar, starfsfólk skólans, starfsfólk íþróttahúss) þurfa að vera vel upplýstir og ber þeim að tilkynna til eineltisteymis ef þeir verða varir við eineltishegðun. Öll eineltishegðun sem er tilkynnt er skráð. Umsjónarkennari og foreldrar/forráðamenn miðla daglega milli sín hvernig dagurinn gekk í skólanum og afrit sent til fulltrúa eineltisteymis.

2. Fulltrúar eineltisteymis ræða við þolanda og geranda daglega á fyrirfram ákveðnum tíma.

3. Geranda er gert ljóst að einelti verði ekki liðið og að gerðir hans séu staðfestar og skráðar af fleiri en einum aðila.

4. Fulltrúar eineltisteymis taka viðtöl við örfáa nemendur í bekknum (þeir gefa oft gleggstu myndina).

5. Einstaklingsbundin viðtöl við þolandann og forráðamenn vikulega. Ef eineltisteymi og forráðamenn eru sammála um að eineltishegðun sé áfram viðvarandi taka þeir ákvörðun í sameiningu um hvenær málinu skal vísað til Fræðsluskrifstofu.

6. Máli lýkur ekki fyrr en foreldrar þolanda hafa fullvissað skólann um að eineltið gagnvart barni þeirra hafi stöðvast. Foreldrar þurfa að staðfesta málalok með undirskrift sinni.

7. Foreldrum geranda er tilkynnt um niðurstöðu málsins.

8. Aðilar máls eru upplýstir um að ef vottur af einelti birtist á ný verði málið tekið strax upp aftur.

 

Eftirfylgni

Eineltisteymi fylgir eftir hverju máli þótt það teljist vera lokið með því að veita málsaðilum öllum viðeigandi stuðning eða aðra aðstoð sem við á hverju sinni. 

 

Saman gegn einelti - myndband frá Menntamálastofnun

 

Eineltisteymi 

Sigrún Huld Auðunsdóttir, deildastjóri & Ása Kristín Margeirsdóttir, kennari í námsveri & Elísabet Kolbrún Eckard, náms- og starfsráðgjafar & Valdís Inga Steinarsdóttir, kennari.