Í dag var fyrsti skóladagur nemenda í Holtaskóla. Foreldrar og nemendur mættu glaðir og spenntir á Malarvöllinn og í Holtaskóla þar sem allir hittu umsjónarkennara sína og farið var yfir mikilvæg atriði fyrir skólabyrjun. Á morgun hefst svo kennsla samkvæmt stundaskrá.
Það eru nokkur atriði sem við biðjum foreldra/forráðamenn að hafa í huga í fyrir skólaárið:
- Mælt er með að nemendur borði staðgóðan morgunmat heima áður en lagt er af stað í skólann og komi með hollt og gott nesti eins og ávexti og grænmeti og/eða brauðsneið með hollu áleggi. Vatn er hollasti drykkurinn. Hægt er að vera í ávaxtaáskrift hjá Skólamat og fá þá nemendur ávexti og grænmeti í nestinu.
- Nemendur í 1.-7. bekk fara út í frímínútur og í hádeginu og því mikilvægt að þeir komi klæddir eftir veðri í skólann. Einnig mælum við með að allir séu með aukaföt í töskunum sínum.
- Nú er skólamatur gjaldfrjáls fyrir alla nemendur en nauðsynlegt er að skrá nemendur í mat á www.skolamatur.is. Nemendur í 1.-5. bekk borða hádegismat í stofum á malarvelli og nemendur í 6.-10. bekk borða hádegismat í matsal Holtaskóla. Allir nemendur þurfa að koma með vatnsbrúsa með sér í skólanum.
- Allir nemendur eiga að lesa heima að lágmarki 5 sinnum í viku í 15 mínútur í senn og skal skrá heimalestur í Læsir appið.
- Í mars verða lögð fyrir ný samræmd stöðu- og framvindupróf í íslensku og stærðfræði í 4., 6. og 9. bekk. Þessi próf eru hluti af stærri heild sem miða að því bæta námsmat og tryggja að kennsla taki mið af þörfum hvers og eins nemanda. Nánari upplýsingar um matsferilinn má finna á www.matsferill.is
- Veikindi og leyfi er hægt að tilkynna á mentor eða til skrifstofustjóra fyrir kl. 8:00 á morgnana. Skrifstofa skólans opnar kl. 07:45.
- Það er mjög mikilvægt að nemendur fari varlega á leið sinni í skólann og noti gangstéttir og gangbrautir. Þeir nemendur sem koma í skólann á farartækjum eiga að geyma tækin við þann inngang sem þeir nota en tækin eru alfarið á ábyrgð nemenda sjálfra. Notkun farartækja er með öllu bönnuð á skólatíma.
Okkur er það hjartans mál að börnunum ykkar líði vel í skólanum. Við viljum að þau geri sitt besta, að þau séu virk í eigin námi og leik, séu ábyrg og kurteis og beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Við viljum að þau finni öryggi, gleði og fái hvatningu til að vaxa og þroskast. Við munum styðja þau í náminu og hlúa að velferð þeirra, en árangurinn verður mestur þegar skólinn og heimilin vinna saman. Með því að fylgjast vel með heimanáminu, tala jákvætt um skólann og hvetja börnin til dáða, eru foreldrar ómetanlegir samstarfsaðilar í því að skapa jákvætt og uppbyggilegt skólasamfélag.
Við hlökkum til samstarfsins í vetur.