Lið Holtaskóla í 2. sæti í vélmennakappleik First Lego League

Lið Holtaskóla lenti í 2. sæti í vélmennakappleik First Lego League keppninnar sem haldin var í Háskólabíó núna um helgina. Keppnin er á vegum Háskóla Íslands og fagnaði 20 ára afmæli í ár. Keppendur hanna og forrita sinn eigin þjark sem leysir ýmsar þrautir á keppnisbrautinni. Fornleifaþema var á keppninni í ár og kynntu keppendur einnig nýsköpunarverkefni því tengdu.

Lið Holtaskóla kallar sig Fat Cats og ákváðu þau að fjalla um Hafurbjarnarstaðakuml. Pétur Brynjarsson, deildarstjóri unglingastigs, fræddi liðið um kumlið á Hafurbjarnarstöðum og fóru keppendur með honum í vettvangsferð á kumlateiginn. Þau heimsóttu einnig Þjóðminjasafn Íslands til að fræðast meira um beinagrindina sem er til sýnis á aðalsýningu safnsins og fannst í kumlinu á Hafurbjarnarstöðum. Nýsköpunarverkefnið miðaði að því að hanna skilti sem gæti frætt fólk um mikilvægi kumlateigsins þar sem hann er illa merktur og fáir vita af honum. Meðlimir liðsins eru þau Aníta Mjöll Ólafsdóttir, Bartosz Krokoszynski, Einar Ágúst Saedkhong, Kristján Bergmann, Róbert Örn Bjarnason, Sebastian Banachowski og Sölvi Steinn Stefánsson.

Við óskum Fat Cats, liði Holtaskóla, innilega til hamingju með 2. sætið í vélmennakappleiknum!