Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar 2022

Í dag fór fram lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Bergi, Hljómahöll. Þar kepptu 14 nemendur frá 7 grunnskólum Reykjanesbæjar. Fyrir hönd Holtaskóla kepptu þær Freyja Marý Davíðsdóttir og Rakel Elísa Haraldsdóttir og sá Helga Hildur skólastjóri um þjálfun þeirra. Mikil undirbúningsvinna liggur að baki vel æfðum upplestri og er markmið keppninnar fyrst og fremst að vekja athygli á vönduðum upplestri og framburði. Verðlaunahafi keppninnar frá því í fyrra kynnti skáld hátíðarinnar í ár sem voru þau Gunnar Helgason og Vilborg Davíðsdóttir. Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlistaratriði á milli atriða. Farres Jarrah, nemandi Holtaskóla, flutti ljóð á móðurmáli sínu sem er arabíska. Helgi Arnarson, sviðsstjóri Fræðslusviðs, flutti ávarp og afhenti keppendum bók að gjöf ásamt rós. Eftir að dómarar höfðu komist að niðurstöðu voru verðlaunahafar kynntir. Nemandi Myllubakkaskóla var í 3. sæti, Freyja Marý hlaut 2. sæti og í 1. sæti var Rakel Elísa. 

Við þökkum þeim Freyju Marý og Rakel Elísu fyrir glæsilega frammistöðu í keppninni og óskum þeim innilega til hamingju með sigursætin. 

Hér má sjá myndir frá keppninni