Síðasta vika fyrir páskafrí

Nú eru liðnar þrjár vikur frá því samkomubann var sett á og skólahaldi breytt. Framundan er páskafrí sem hefst mánudaginn 6. apríl. Nú er ljóst er að skóli verður áfram með óhefðbundnu sniði þar sem samkomubann hefur verið framlengt til 4. maí. Samþykkt var á fundi fræðsluráðs í morgun að skólarnir fengju starfsdag þriðjudaginn 14. apríl og verður hann nýttur til undirbúnings og skipulags. Frístund er lokuð þennan dag.

 

Skóli hefst aftur eftir páskafrí miðvikudaginn 15. apríl . Foreldrar fá í kjölfarið upplýsingar frá kennurum hvernig framhaldinu verður háttað og við biðjum foreldra að fylgjast með tölvupósti og á Mentor. Árshátíð grunnskólanna fyrir nemendur í 8.-10. bekk sem halda átti 16. apríl hefur verið frestað og önnur útfærsla kynnt síðar.

 

Við gerum okkur grein fyrir að breyttar aðstæður eru krefjandi fyrir heimilin. Sálfræðingar Reykjanesbæjar hafa útbúið hagnýtt efni fyrir foreldra undir yfirskriftinni Að takast á við óvissutíma og er aðgengilegt hér. Einnig bjóða sálfræðingar upp á símaráðgjöf sem ætlað til að styðja við foreldra til að aðstoða börnin sín að takast á við breyttar aðstæður. Skólinn hefur í vetur innleitt Hugarfrelsi og er nú boðið upp á lesnar slakanir og hugleiðslur í hlaðvarpi fyrir bæði börn og foreldra. Nánari upplýsingar má finna hér.

 

Áfram eru þó skemmtilegar fréttir úr skólastarfinu hjá okkur og nemendur takast á við fjölbreytt og skemmtileg verkefni þó að forsendur séu breyttar. Allir nemendur fara daglega í útiveru og þar er oft ansi gaman. 2. bekkur bakaði til dæmis vöfflur og 5. bekkur horfi á Málið á Rúv, en þar tóku þátt þær Sara María 5. HS og Hulda Elisabeth 5. EKE. Hér fylgja líka nokkrar myndir frá páskafjöri 5. bekkja. Foreldrafélag skólans kom færandi hendi með kærkominn glaðning handa starfsmönnum skólans sem þakka fyrir sig.

 

 

Starfsfólk Holtaskóla þakkar aftur fyrir allan stuðninginn, hrósið og velvildina sem við höfum fengið síðustu vikur. Eigið gleðilega páska og við vonum að þið njótið góðra samverustunda í fríinu.