Sigurhátíð, holtasprettur og vorhátíð 2024

Það er óhætt að segja að dagarnir í þessari viku hafi verið viðburðarríkir hér í Holtaskóla. Á mánudaginn skoraði 10. bekkur á kennara í körfuboltaleik og komu nemendur vel undirbúnir til leiks. Svo vel undirbúnir að þau höfðu með sér liðsauka úr meistaradeild Keflavíkur. Eftir leikinn var haldin sigurhátíð Holtaskóla, en skólinn hefur átt marga glæsilega fulltrúa á þessu skólaári. Þau Oddur Óðinn og Eydís Sól voru í 2. og 3. sæti Stóru upplestrarkeppninnar, Guðbjörg Sofie, Matthías Leon og Mattíhas S. voru í sigurliði Gettu enn betur, Auður, Bryndís, Benedikt, Mikael, Ragnheiður og Svanur sigruðu undankeppni Skólahreystis og höfnuðu í 4. sæti í aðalkeppninni og Tómas Logi sigraði unglingaflokk grunnskólaskákmóts skólanna á Suðurnesjunum. Starfsmenn skólans hafa einnig átt góðu gengi að fagna og voru þær Agnes María, Anna Lára og Birna Valgerður bikar-, deild- og Íslandsmeistarar í körfubolta auk þess sem Jenný Þórkatla fékk sérstök heiðursverðlaun menntaráðs á dögunum. Til hamingju öll!

Hér má sjá myndir frá þessum degi.

Á þriðjudaginn var haldinn Holtasprettur og keppa þá bekkir sín á milli í margvíslegum þrautum með það að markmiði að standa uppi sem sigurvegari síns stigs. Þrátt fyrir gular viðvaranir fengum við gott veður og fór keppnin fram bæði inni og úti við. Nemendur kepptu m.a. í pútti, fótbolta, stígvélakasti, ping pong og að negla í spýtu. Á yngsta stigi voru það nemendur 4. DP sem stóðu uppi sem sigurvegarar, á miðstigi sigraði 7. ALV og á unglingastigi var það 10. KMG. Við óskum þessum bekkjum innilega til hamingju með sigurinn, frábæra samvinnu og seiglu. 

Hér má sjá myndir frá Holtaspretti

Í dag var haldin vorhátíð Holtaskóla við mikla gleði, bæði nemenda, starfsmanna og foreldra/forráðamanna. Hátíðin byrjaði á atriði frá Sirkus Ísland, næst steig á svið Páll Óskar við mikla gleði viðstaddra. Brunavarnir Suðurnesja sáu svo um að bleyta aðeins í nemendum áður en litahlaupið hófst. Við færum þeim kærar þakkir fyrir. Gleðin skein úr andlitum litríkra barna þegar kom að pysluveislunni, en starfsfólk sá um að grilla pylsur fyrir alla.

Við viljum þakka nemendum, foreldrum/forráðamönnum, starfsmönnum og öðrum þeim sem hjálpuð til við að gera þessa daga frábæra!

Hér má sjá myndir frá vorhátíð