Skólaslit Holtaskóla 2024

Í dag, fimmtudaginn 6. júní, fóru fram skólaslit Holtaskóla í Hljómahöllinni. Skólaslitin voru þrískipt og mættu fyrst nemendur yngsta stigs kl. 09:00.  Nemendur miðstigs mættu kl. 10:00 og nemendur elsta stigs kl. 11:00. Nemendur í 1.-9. bekk komu í stafrófsröð upp á svið og fengu afhent umslag með hrósskjölum og lesfiminiðurstöðum frá umsjónarkennurum sínum. Unnar skólastjóri flutti ávarp og ræddi um mikilvægi þess að nemendur séu áhugasamir um námið og þori að stíga inn í verkefnin sem kennarinn ber á borð fyrir þá með forvitni og jákvætt viðhorf að leiðarljósi. Holtaskóli hefur verið að innleiða leiðsagnarnám sem byggir meðal annars á vaxtarhugarfari sem felur í sér að nemendur þjálfi þessa þætti auk þrautseigju. Piotr Gruszka, nemandi í 3. bekk, lék á gítar á skólaslitum yngsta stigs og Vanessa Godlewska, nemandi í 6. bekk, lék á fiðlu á skólaslitum miðstigs. Lestrarömmum skólans var þakkað fyrir sín störf, en þær Ástríður Sigurvinsdóttir, Elín Jakobsdóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Lilja Jóhannsdóttir, Salvör Gunnarsdóttir og Sigríður Bílddal gefa nemendum tíma sinn í hverri viku og koma til þess að hlusta á nemendur lesa. Við færum þeim kærar þakkir fyrir sitt framlag til nemenda okkar. Auk þess var minnt á mikilvægi sumarlesturs og sumarlestur Bókasafns Reykjanesbæjar. 

Nemendur í 10. bekk voru útskrifaðir við hátíðlega stund. Rúna María Fjeldsted og Arnór Berg Jóhannsson fluttu ávarp nemenda. Stúlkurnar í 10. bekk afhentu Sigrúnu og Unnari glæsilegt málverk sem þær máluðu í sameiningu í vetur. Við færum þeim kærar þakkir fyrir og hlökkum til að finna málverkinu stað í nýuppgerðum Holtaskóla. Silja María Albertsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, afhenti námsráðgjafarósina og í ár var það Ágúst Máni Einarsson, nemandi í 10. bekk sem hlaut hana. Ásta Björnsdóttir og Ásgerður Þórarinsdóttir voru kvaddar og þeim þakkað fyrir sín störf með standandi lófataki, en þær láta af störfum vegna aldurs. Guðbjörg Sofie, nemandi í 10. bekk, spilaði á þverflautu við píanóundirleik frá Sigrúnu Gróu. Við útskrift fengu nemendur afhentan vitnisburð og skólatrefil Holtaskóla. Auk þess fengu nokkrir nemendur viðurkenningu fyrir góðan árangur í námi. 

Við óskum öllum 10. bekkingum til hamingju með útskriftina og framtíðin er svo sannarlega þeirra. 

Hér má sjá myndir frá deginum.