Stóra upplestrarkeppnin í Holtaskóla

Í morgun var haldin skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar hér í Holtaskóla. Tíu nemendur úr 7. bekk kepptu til úrslita og stóðu tveir þeirra uppi sem sigurvegarar og munu keppa fyrir hönd skólans í Bergi, Hljómahöll þann 11. mars. Allir nemendur sem kepptu til úrslita hafa lagt mikla vinnu og elju í undirbúning og sást það glögglega á öruggum og hljómgóðum upplestri. Þær Guðbjörg Rut Þórisdóttir, Hrafnhildur Hilmarsdóttir og Guðlaug María Lewis voru dómarar. Hörð keppni var á milli nemenda og starf dómara vandasamt. Á meðan dómarar sinntu sínum störfum spilaði Eva Kristín Karlsdóttir á píanó. Að lokum stóðu þau Margrét Júlía Jóhannsdóttir og Kári Kjartansson í 7. VR uppi sem sigurvegarar. Við óskum þeim innilega til hamingju með sigurinn og hlökkum til að fylgjast með þeim keppa fyrir hönd skólans þegar skólar í Reykjanesbæ mætast í mars.

Nokkrar myndir frá keppninni má sjá hér.