Umhverfisdagur og sigurhátíð Holtaskóla 2022

Umhverfisdagur Holtaskóla var í dag þann 27. maí í sól og blíðu. Nemendur hittu kennara í stofum sínum og horfðu á myndband frá Sævari Helga Bragasyni um urðun og sorpvinnslu, en myndbandið er brot úr þáttunum Hvað höfum við gert? sem RÚV sýndi. Nemendur og starfsfólk Holtaskóla hittust síðan á sal skólans þar sem haldin var sigurhátíð til heiðurs sigurvegurum skólans þetta skólaárið. Við hylltum sigurvegara úr sjöunda bekk, þær Rakel Elísu og Freyju Marý, sem hlutu fyrsta og annað sætið í Stóru-Upplestrakeppninni og Skólahreystisliðið okkar, þau Almar, Dag, Helen, Margréti, Ásdísi, Júlían og Stellu, sem náðu þriðja sæti á landsvísu í Skólahreysti 2022. Fagnaðarlætin ómuðu og peppið ætlaði að rífa þakið af skólanum okkar. Vel gert öll!

Eftir vel heppnaða sigurhátíð fóru árgangarnir í mismunandi verkefni sem öll tengdust því að hlúa að umhverfinu bæði í kringum skólann og á útisvæðinu okkar. Sumir plokkuðu rusl, aðrir sópuðu og vel heppnaður fataskiptamarkaður var haldinn þar sem rúmlega 100 notaðar flíkur fengu nýja eigendur. Beðin fyrir framan Holtaskóla voru grisjuð allverulega og trén fá betra rými til að dafna næstu ár með nýju lagi af næringaríkri mold. Svo gafst líka tækifæri til að fara í útileiki og gera íþróttaæfingar (framtíðar Skólahreystiskrakkar).

Við þökkum öllum fyrir frábæran dag!

Hér má sjá fleiri myndir frá deginum